Af hverju heitir Apavatn svona undarlegu nafni? Á mjólkurfernum og hér á vefsíðunni finnur þú skýringuna á þessu skemmtilega örnefni og mörgum öðrum nöfnum sem gaman er að fræðast um.
Skjálfandi heitir allstór flói á Norðurlandi. Samkvæmt Landnámu er nafnið ættað frá Garðari Svavarssyni, þeim sama og kallaði Ísland Garðarshólma eftir sjálfum sér. Líklegt er að nafnið sé dregið af tíðum jarðskjálftum á þessu svæði enda liggja þar misgengi og brotabelti. Feikistór skjálfti varð til dæmis árið 1755 og hrundu þá hús á Húsavík og bátar fórust á Skjálfanda í flóðbylgjunni sem fylgdi.
Almannagjá er heiti á langri og alþekktri sprungu sem liggur rétt vestan Þingvalla og fellur Öxará eftir henni að hluta. Ýmsir hlutar Almannagjár bera einnig sérstök nöfn, eins og Stekkjargjá og Hvannagjá, og sumir eru kenndir við húsdýr sem þar hafa verið geymd, til dæmis Hestagjá og Lambagjá. Örnefni sem hafa Almanna- að fyrri lið benda til þess að þar hafi annaðhvort verið alfaraleið eða að almenningur hafi átt rétt á að nýta svæðið. Slík nöfn finnast víða um land.
Stöðuvatn í Árnessýslu heitir Apavatn. Nafnið hefur vakið forvitni og spurningar. Voru til apar á Íslandi til forna? Leika þeir enn lausum hala? Vatnið er þó varla kennt við apaketti eða górillur heldur merkir apa- í þessu samhengi leðja eða aur.
Fjallið Baula í Borgarfirði minnir marga ferðalanga á baulandi kýr. Uppruna nafnsins er þó ekki hægt að rekja til gauls nautgripa heldur er hér á ferðinni orð sem merkir það sem hefur tútnað eða bólgnað út. Nafnið kemur fyrir á ýmsum stöðum á landinu, bæði á fjöllum og á hólmum í sjó.
Bessastaðir hafa frá fornu fari verið bústaður stórmenna á Íslandi. Á 13. öld átti Snorri Sturluson jörðina en seinna bjuggu þar fógetar, hirðstjórar og amtmenn, innlendir sem erlendir. Íslenska ríkið eignaðist staðinn 1941 og síðan hafa forsetar Íslands búið þar. Bessastaðir eru kenndir við mann sem hét Bessi eða Bersi en hann er annars alveg óþekktur.
Bíldudalur við Arnarfjörð er líklega kenndur við bíldótta eða blettótta kind. Í hugum margra af eldri kynslóðinni er staðurinn órjúfanlega tengdur grænum baunum í dós enda gerði hljómsveitin Jolli & Kóla þennan niðursuðuvarning ódauðlegan með laginu Bíldudals grænar baunir. Yngra fólk er líklegra til að leiða hugann að skrímslum þegar það heyrir minnst á Bíldudal því að þar er nú rekið alþekkt skrímslasetur.
Kringum aldamótin 1800, meðan Reykjavík var enn bara þorp með innan við 500 íbúa, var stundum sagt að bærinn hefði byrjað í bráðræði og endað í ráðleysu. Bráðræði var þá smábýli í útjaðri Reykjavíkur og stóð þar sem nú er Grandavegur í Vesturbænum. Í hinum enda bæjarins stóð kotbýlið Ráðleysa, ekki langt frá gatnamótum Laugavegar og Frakkastígs. Bæði býlin stóðu þá nokkuð fyrir utan bæinn og voru uppnefnd svo af því að lítið vit þótti í að byggja þar, svo langt utan alfaraleiðar.
Um 50 fjöll vítt og breitt á Íslandi bera nafnið Búrfell. Þau eru flest með svipuðu lagi og standa stök upp úr landslaginu. Fjöllin nefnast svo vegna þess að þau líkjast búrum að fornu, húsum sem stóðu sér og geymdu matvæli og önnur verðmæti. Vegna hjátrúar voru Búrfell stundum kölluð Matarfell af sjómönnum. Þeir veigruðu sér við að nota orðið búr af hræðslu við að búrhvalurinn gæti þá komið og grandað bátnum þeirra.
Örnefnið Dímon er ættað úr írsku og merkir tvö fell eða tvær hæðir. Oftast er því um að ræða tvö fjöll sem standa stök en stutt á milli þeirra. Þannig standa Stóra-Dímon og Litla-Dímon upp úr söndum Markarfljóts og Stóri- og Litli-Dímon við Þjórsá skammt frá Árnesi. Stóra-Díma og Litla-Díma í Hornafirði eru af sömu rót. Dæmin eru fleiri, langflest af Suðurlandi.
Esjan hefur um hríð verið kölluð bæjarfjall Reykvíkinga og jafnvel lengur hafa menn velt fyrir sér merkingu nafnsins. Gamlar sögur eru til um írska konu sem hét Esja og bjó á Esjubergi og hafa menn ályktað af því að nafnið sé af írskum rótum. Líklegra er þó að nafnið sé norrænt enda finnst það um alla Skandinavíu og merkir bæði eldstæði og steintegund. Sennilega vísar nafnið til ljósrar steintegundar sem er að finna í fjallinu.
Eyjafjallajökull varð heimsfrægur ef ekki alræmdur um stund árið 2010 þegar gos í jöklinum varð til þess að flugumferð víða um heim raskaðist. Jökullinn er kenndur við fjöllin sem hann hvílir á og þau aftur við eyjar, annaðhvort Vestmannaeyjar, sem mara í hafinu skammt undan landi, eða Landeyjar, svæðið vestur af fjöllunum.
Bærinn Kaldaðarnes stendur neðarlega við Ölfusá í Flóa og sambærileg örnefni finnast víðar á landinu. Nafnið er dálítið úr lagi fært því upphaflega var það Kallaðarnes. Hét það svo eftir því að þar var kallað á ferjumann til að flytja menn og skepnur yfir ána. Nafnið stafar frá tímanum áður en farið var að brúa stórfljót á Íslandi.
Fimmvörðuháls heitir hálsinn milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Hann var mikið í fréttum hér um árið þegar hraun tóku að renna þar úr sprungum og útkoman var mikið sjónarspil. Nafn dregur hálsinn af því að þar voru einu sinni hlaðnar fimm vörður til að vísa smalamönnum rétta leið í dimmviðri.
Fjalakötturinn var áður fyrr uppnefni á húsi í Reykjavík sem stóð við Aðalstræti 8. Þar tók fyrsta leikhús á Íslandi til starfa og seinna var Gamla-Bíó, sem þá hét reyndar Reykjavíkur Biograftheater, stofnað þar. Húsið var rifið 1984. Seinna var veitingastaður opnaður undir sama nafni í Aðalstræti 16, í nýju húsi sem er eftirlíking af gamla húsinu við Aðalstræti 8. Nafn hússins var upphaflega hugsað sem lastyrði því að það þótti hálfgerð hrákasmíð. Fjalaköttur er nefnilega heiti á sérstakri músagildru, fjalakassa sem ætlað var að fanga óvelkomin nagdýr, og dregur húsið nafn af því.
Fjörður er nafn á landsvæði norðanlands, austan Eyjafjarðar. Til þess heyra Þorgeirsfjörður og Hvalvatnsfjörður auk Keflavíkur. Nafnið er haft í fleirtölu og kvenkyni, þær Fjörðurnar, og hefur örnefnið skipt bæði um kyn og tölu, úr karlkyni eintölu í kvenkyn fleirtölu. Sams konar breytingar eru raunar vel þekktar meðal örnefna: Eiðarnir og Laugarnir, Giljarnar og Gerðarnar, Fjörðurnar og Völlurnar.
Fontur eða Langanesfontur er heiti á bláenda Langaness á norðausturhorni landsins og svipuð nöfn koma fyrir víðar á landinu. Uppruni og merking er sú sama og í skírnarfontur og er haft um það sem stendur beint upp eins og fótur eða stöpull. Fontur er líka hugtak í leturgerð og táknar flokk stafa sem hafa sömu grunngerð. Times New Roman, Garamond, Helvetica og Courier eru tegundir af fontum.
Fnjóskadalur fyrir norðan er ekki síst þekktur fyrir Vaglaskóg, vinsælt útivistarsvæði og einn af stærstu skógum Íslands. Áður fyrr var dalurinn líka kallaður Hnjóskadalur og heyrist sá framburður stundum enn. Fnjóskur eða hnjóskur er þurr trjábútur eða sprek og má næstum heyra viðarbrakið í orðunum. Fornleifar í dalnum benda til þess að frá elstu tíð hafi þar verið stunduð kolagerð úr fnjóskum og hnjóskum skógarins en kolin voru meðal annars notuð við járnvinnslu.
Gaulverjabær er bær og kirkjustaður í Flóa í Árnessýslu. Nafnið er talið dregið af Gaulum, héraði í Noregi, enda voru landnámsmennirnir í Gaulverjabæ ættaðir þaðan. Annar Gaulverjabær kemur fyrir í bókunum um Ástrík, Steinrík og félaga. Gaulverjar eru þar keltneskur þjóðflokkur sem stendur uppi í hárinu á Rómverjum. Heiti þeirra á íslensku er fengið að láni frá bænum í Flóanum. Á frönsku nefnast þeir Gaulois og hafa líka oft verið kallaðir Gallar á íslensku.
Gásir eða Gáseyri heitir forn verslunarstaður við mynni Hörgár í Eyjafirði. Örnefnið er sérkennilegt en mun dregið af fuglsheitinu gæs sem var einmitt gás í fornu máli. Verslun lagðist af á Gásum á 15. eða 16. öld og var flutt til Akureyrar. Við fornleifauppgröft á Gásum hefur fundist talsvert magn leirkerabrota af þýskum og enskum uppruna.
Geysir í Haukadal í Biskupstungum er frægasti sonur íslenskra goshvera þótt hann hafi lítið látið á sér kræla undanfarið. Á síðustu árum hefur litli bróðir hans, Strokkur, haldið merki þeirra bræðra á lofti. Nafn Geysis er dregið af sagnorðinu gjósa og merkir sá sem gýs. Nafnið hefur náð fótfestu í alþjóðamáli og eru hverir af þessari tegund kallaðir geyser upp á ensku. Í Yellowstone- þjóðgarðinum í Bandaríkjunum er til dæmis að finna goshverina Old Faithful Geyser, Lion Geyser, Daisy Geyser og fleiri.
Í miðbæ Reykjavíkur er torg kennt við Ingólf Arnarson landnámsmann, Ingólfstorg. Nafnið fékk torgið 1993 eftir verulegar endurbætur. Áður hafði staðið þarna hið fornfræga Hótel Ísland, þangað til það brann 1944. Upp úr því varð staðurinn vinsæll samkomustaður ungmenna í Reykjavík og gekk undir nafninu Hallærisplanið, sennilega vegna þess að unga fólkið átti hvergi í hús að venda. Staðurinn mun hafa gegnt lykilhlutverki í samskiptum kynjanna um árabil.
Hekla er nafntogaðasta eldfjall á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Við síendurtekin gos hefur fjallið tekið verulegum breytingum frá því að það hlaut fyrst nafn. Í elstu heimildum er það kallað Heklufell. Hekla getur merkt kápa eða yfirhöfn. Talið er að fjallið dragi nafn af því að það klæðist hvítri snækápu fyrr en önnur fjöll í nágrenninu og kastar henni síðar af sér að vori.
„Í þrálátri norðaustanátt og óþurrkatíð, þegar himinninn hefir lengi verið þoku kafinn, svo að hvergi hefir séð til lofts, bregður stundum fyrir, einkum seinni part dags, eða að kvöldi, heiðríkjurönd yfir Hrafnsstaðaöxl. Oftast er þessi rönd bogamynduð. Þetta er Hjaltagat og boðar þurrk að morgni, sem stendur í þrjá daga.“ Úr örnefnaskrá Gvendarstaða í Köldukinn, Suður-Þingeyjarsýslu Hjaltagat er eina örnefnið í lausu lofti sem vitað er um á Íslandi.
Ein helsta miðstöð strætisvagna í Reykjavík undanfarna áratugi hefur verið Hlemmur, svæðið milli Laugavegar og Hverfisgötu. Göturnar renna þar saman í eitt, rétt fyrir framan Lögreglustöðina í Reykjavík. Á þessum slóðum rann Rauðará áleiðis í átt til sjávar fyrir margt löngu og yfir hana lá lítil trébrú enda var staðurinn í alfaraleið. Brúin þótti heldur ómerkileg og var nefnd Hlemmur í niðrandi tón. Bæði brú og á eru löngu horfin af yfirborðinu en nafnið lifir áfram.
Hreinatungur við Jökulsá á Dal eru kenndar við hreindýr eins og örfá önnur slík örnefni á landinu. Hreindýr námu seint land á Íslandi, ekki fyrr en á seinni hluta 18. aldar þegar þau voru flutt hingað frá Noregi. Framan af voru hreindýrahjarðir bæði sunnanlands, meira að segja í Vestmannaeyjum, og austan en aðeins á Austurlandi hafa hreindýrin lifað fram á okkar daga.
Látur koma fyrir víða um land og ávallt við sjávarsíðuna. Nafnið táknar staðinn sem urtan kæpir á, m.ö.o. þar sem kvendýr selsins fæðir kópa sína. Til eru örnefni eins og Látur, Sellátur, Hólmlátur, Þaralátur o.fl. Nafnið Hvallátur hefur vakið furðu enda eiga hvalkýr kálfa sína ekki í látrum heldur fæðast þeir í sjó. Nafnið mun vísa til rostunga en þeir voru kallaðir rosmhvalir til forna og voru mun algengari þá við strendur landsins.
Í hersetu Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar urðu til margir tugir kampa eða braggahverfa. Hverfin fengu öll nöfn á ensku og sum íslensk heiti að auki, t.d. Múlakampur sem hét Camp Caledonia upp á ensku. Tripoli camp eða Trípolíkampur stóð vestur á Melum. Nafnið vísaði til Trípolíborgar í Líbíu en þar höfðu herir Bandaríkjanna barist í byrjun 19. aldar. Annað braggahverfi hét Camp Montezuma og stóð við rætur Úlfarsfells. Bæði þessi nöfn vísa til upphafsins á lofsöng bandarísku landgönguliðanna:
Klambratún er stór garður í hjarta Reykjavíkur. Nafnið er dregið af býli sem þarna stóð og hét Klömbur eða Klambrar. Það nafn merkti upphaflega þrengsli eða klemmu og þótti sumum það óvirðulegt heiti á almenningsgarði. Því var um hríð farið að kalla garðinn Miklatún eftir Miklubraut sem liggur þar meðfram. Þessi nöfn háðu einvígi árum saman en 2010 hjuggu borgaryfirvöld á hnútinn og ákváðu að garðurinn skyldi eftirleiðis heita Klambratún.
Fyrir daga úra og farsíma voru til ýmsar aðferðir til að glöggva sig á hvað tímanum leið. Kennileiti í landinu voru kennd við gömlu eyktamörkin og nefnd eftir því hvenær sólin reis yfir þeim. Þannig urðu til örnefni eins og Dagmálahnjúkur af því að klukkan var um 9 að morgni þegar sól bar í hnjúkinn, séð frá bæjardyrum þeirra sem notuðu nafnið. Sólin var yfir Hádegismóum um kl. 12, yfir Nónborg um kl. 15, yfir Miðaftansvörðu um kl. 18.
Kolgrafafjörður heitir dálítill fjörður næst austan við Grundarfjörð á Snæfellsnesi. Hann dregur nafn af bænum Kolgröfum sem stendur undir Kolgrafamúla að austanverðu í firðinum. Bærinn heitir aftur svo vegna þess að þar var unnið að kolagerð til forna. Þá voru viðarbútar settir í gröf og kveikt í en gröfin síðan byrgð með torfi. Glóð hélst í gröfinni lengi á eftir og viðurinn kolaðist.
Kóngar og drottningar hafa ekki ríkt formlega á Íslandi síðan landið gekk úr konungssambandi við Danmörku 1944. Kóngsbakki á Snæfellsnesi hét áður bara Bakki en var kenndur við blóðið bláa þegar jörðin komst í eigu konungs eftir siðaskipti. Eyjar, fjöll, hverir og vegir eru kenndir við kónga og drottningar, prinsa og kóngsdætur. Sumir staðirnir munu þó kenndir við alíslenskt aðalsfólk eins og fjallkónga eða æðarkónga.
Krafla er heiti á megineldstöð norðaustur af Mývatni. Um er að ræða víðáttumikið en ekki sérlega háreist svæði sem í er allstór askja. Svæðið er allt sundurskorið af jarðhita og vellandi af brennisteini. Víti heitir þar gígur sem varð til við mikla sprengingu 1724 og markaði upphafið að Mývatnseldum. Nafnið Krafla vísar til þess að mikið líf er í jarðskorpunni á þessum stað, ólgandi hverir, skjálfandi land og rennandi hraun.
Bær einn í Skagafirði gekk lengi undir nafninu Kryddhóll. Líklega var upphaflegt heiti bæjarins Krythóll og mun dregið af því að krytur eða deila ríkti um landamerki jarðarinnar. Munnmæli hermdu að þar hefðu fyrr á öldum hafst við munkar sem ræktuðu kúmen og drægi bærinn Kryddhóll nafn af því. Fyrir því eru þó engar ábyggilegar heimildir og kúmenræktun hófst ekki fyrr en á síðari öldum, löngu eftir að nafnið varð til.
Lagarfljót er mikil jökulsá á Austurlandi. Það hefur gengið undir ýmsum nöfnum, bæði Lagarfljót og Fljótið og á síðari tímum Lögurinn. Orðið lögur merkir ýmist haf, vatn eða vökvi og á sér hliðstæður í skyldum málum, sbr. lake, loch og laguna. Lagarfljót er ekki síst þekkt fyrir orminn sem kenndur er við það en hans er fyrst getið á 14. öld. Fleiri furðuskepnur hafa verið tengdar fljótinu, bæði nykur, sækýr, selur og skata með níu hala.
Lakagígar í Síðumannaafrétti í Vestur-Skafta- fellssýslu eru gríðarmikil hraunsprunga, 25 km löng enda á milli og með yfir 130 gíga. Þeir eru kenndir við fjallið Laka sem stendur í röðinni miðri. Skaftáreldar hófust með eldgosi í Lakagígum 1783. Í kjölfar þeirra komu móðuharðindin, miklar hörmungar sem ollu harmkvælum meðal manna og dýra í mörg ár á eftir. Laki er einnig heiti á einu af fjórum magahólfum íslensku mjólkurkýrinnar. Nafn fjallsins er dregið af heiti kýrmagans og hefur þótt minna á hann.
Að kvöldi 20. mars 2010 hófst eldgos á Fimm- vörðuhálsi sem stóð í þrjár vikur. Menn fóru fljótlega að velta fyrir sér nöfnum á eldgígana og sýndist sitt hverjum en þeir fengu á endanum nöfnin Magni og Móði. Gígarnir blasa við úr Goðalandi og Þórsmörk og það var engin tilviljun sem réð nafngiftinni. Synir þrumuguðsins Þórs, sem Þórsmörk er kennd við, hétu nefnilega Magni og Móði.
Mjólkár eða Mjólkurár koma fyrir á nokkrum stöðum á landinu, m.a. á Reykjaströnd í Skagafirði og austur á Héraði. Þekktust er þó sú sem rennur til sjávar í Arnarfirði vestra enda er heil virkjun við hana kennd. Áin dró heiti af því að hún féll fyssandi og freyðandi niður brattar hlíðar, hvít eins og mjólk á litinn.
Eitt af svipmeiri húsum gömlu Reykjavíkur stendur á horni Þingholtsstrætis og Skálholtsstígs. Það var reist árið 1903 af Magnúsi Stephensen landshöfðingja og var í kjölfarið formlega nefnt Landshöfðingjahúsið. Í daglegu tali manna gekk það hins vegar undir öðru nafni sem vísaði til lögunarinnar á turnspírunni. Það þekkist enn sem Næpan en formlega nafnið er löngu týnt.
Ódáðahraun er heiti á gríðarmiklu hrauni á Norðausturlandi, norðan Vatnajökuls. Dyngjufjöll, Herðubreið, Upptyppingar og mörg önnur fjöll rísa upp úr hraunflæminu en vatnafarið er miklu fátæklegra. Nafnið virðist dregið af einhverju ódæði og hafa menn ímyndað sér að þar hafi óbótamenn hafst við til forna. Önnur tilgáta er að nafnið sé afbökun úr Ördauðahraun sem lýsi því vel hversu gersneytt gróðri og lífi hraunið er.
Papar eru nefndir í gömlum íslenskum sögum og taldir hafa verið einsetumenn eða munkar af írskum uppruna. Þeir eru stundum sagðir hafa komið til Íslands á undan norrænu landnámsmönnunum en síðan horfið á braut. Nokkur örnefni hafa verið tengd við veru papa hér á landi, t.d. Papey, Papafjörður og Papafell. Önnur skýring er sú að papaörnefni séu kennd við brjóst og tákni eitthvað ávalt eða hvelft.
Purkey heitir eyja á Breiðafirði, norðaustur af Stykkishólmi, en ekki er vitað til þess að þar hafi búið svefnpurkur. Að fornu hét eyjan Svíney en nöfnin eru raunar svipaðrar merkingar því að purka merkir kvensvín eða gylta. Orðið pork í ensku á sér sama uppruna. Fjarskyldur ættingi þessara er orðið postulín sem er porcelain eða álíka á erlendum tungum. Það orð er dregið af lögun ákveðinnar skeljategundar. Bárurnar á þeirri skel þóttu minna á hryggjarliði á grísum. Skeljafjörur þykja einmitt prýðisgóðar við Purkey.
Skuggi var nafn á smábýli í Reykjavík á 19. öld. Það stóð á þeim slóðum sem Klapparstígur endar að neðanverðu. Það er ekki bjart yfir nafninu og má því ætla að býlið hafi þótt búa yfir litlum kostum. Skuggahverfi dró nafn af Skugga og Skuggahverfisgata dró nafn af hverfinu. Nafn götunnar hefur styst nokkuð með tímanum en hún er nú kölluð Hverfisgata enda er kotið Skuggi líka löngu horfið.
Fyrir ofan Leirhöfn á Melrakkasléttu rísa tveir fjallshnúkar, kallaðir Smjörbítlar. Svæðið milli hnúkanna þótti gott beitarland og varð það sauðfé feitt og gaf vel af sér sem þar var haldið til haga. Fjölmörg örnefni á Íslandi eru kennd við smjör og munu nafngiftirnar oftast vísa til þess að landið þar í kring þótti gott til beitar.
Strútar finnast nokkrir á Íslandi þótt fáir þeirra séu að vísu af fuglakyni. Einn er fjall sem rís hátt í 1000 metra hæð yfir sjávarmáli á Mælifellssandi norðan Mýrdalsjökuls. Annar Strútur litlu lægri stendur ofarlega við Hvítá í Borgarfirði. Nafnið merkir eitthvað sem er uppmjótt eða í laginu eins og háls.
Stöðvarfjörður heitir einn af suðurfjörðum Austfjarða, milli Breiðdalsvíkur að sunnan og Fáskrúðsfjarðar að norðan. Fjörðurinn er rómaður fyrir náttúrufegurð. Fyrir botni fjarðarins er bærinn Stöð sem hann er kenndur við. Orðið stöð er upphaflega haft um lendingarstað báta enda er það náskylt orðinu staður. Seinna er farið að nota það um hvers kyns staði þar sem maðurinn sinnir athöfnum sínum: veiðistöð, miðstöð, verstöð, símstöð, strætóstoppistöð.
Trékyllisvík á Ströndum var á fyrri öldum alræmd fyrir galdra, drauga og hjátrú og þar voru þrír galdramenn brenndir á báli árið 1654. Í Landnámu er víkin sögð kennd við skip sem hét Trékyllir og var smíðað úr leifum af eldra skipi sem hafði strandað þar. Mikill rekaviður er í Trékyllisvík og gæti nafnið einfaldlega verið dregið af rekadrumbunum og vísað til kollóttra eða ávalra drumba.
Gísli á Uppsölum var landsþekktur maður á 20. öld. Hann bjó á bænum Uppsölum í Selárdal í Arnarfirði. Sá bær stendur allhátt í landinu og ofarlega í dalnum og dregur líklega nafn af staðsetningunni. Nálægt 20 bæir á Íslandi hafa borið þetta nafn og standa flestir hátt. Ekki er þó óhugsandi að einhver dragi beint nafn af sænska örnefninu Uppsala. Í sænsku merkja nöfn af þessum toga yfirleitt að staðirnir eru langt frá sjó.
Vigur er þekkt heiti á eyju einni í Ísafjarðardjúpi og reyndar víðar á Íslandi. Í fornu máli merkti orðið vigur spjót eða sverð og í skyldum málum eitthvað langt og mjótt, t.d. trjágrein eða grannvaxinn mann. Eyjan í Ísafjarðardjúpi er sannarlega löng og mjó, um 2 km á lengd og innan við 400 m þar sem hún er breiðust. Vigur eða vektor er einnig þekkt hugtak í stærðfræði sem hægt er að nota til að lýsa bæði stærð og stefnu.
Þúfnabani var heiti á stórvöxnu jarðvinnslutæki sem notað var hér á landi á fyrri hluta 20. aldar. Fyrsta tækið kom til Reykjavíkur 1921 og annað kom til Akureyrar ári síðar. Þúfnabanar voru eins og nafnið gefur til kynna notaðir til að slétta tún. Þessi tæki eru löngu horfin á braut fyrir utan einn safngrip á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri og tvö örnefni. Þúfnabanaslétta er í túni Pálmholts á Galmaströnd í Eyjafirði og Þúfnabanaflöt á Blikastöðum í Mosfellssveit.
Örnefni kennd við örfiri eru allnokkur vítt og breitt um landið. Merking orðsins er útfiri eða fjara og er haft um staði sem hægt er að ganga um á fjöru eða þegar sjór fellur frá landi. Þekktust Örfiriseyja er í Reykjavík þótt svipuð nöfn séu víða um land. Oft hafa þessi nöfn valdið misskilningi og rithættir þeirra verið á ýmsa lund, t.d. Örfarsey, Örfirsey, Örfærisey eða jafnvel Effersey.
Hvort sem við höfum talað íslensku frá blautu barnsbeini eða numið hana síðar er ræktun málsins lífstíðarverkefni. Að rækta tungumál, aga hugsun sína og skerpa tjáningu er besta leiðin til betri samskipta og gagnkvæms skilnings. Við erum ólík að uppruna en tengjumst í gegnum tungumálið.
Örnefni á Íslandi er nýjasta átak MS á mjólkurfernum en frá árinu 1994 hefur fyrirtækið beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins í samstarfi við Íslenska málnefnd. Samstarf þessara tveggja aðila um íslenska málrækt er sérstaklega verðmætt og mikilvægt verkefni, en þar á MS að baki úrvalssveit fagmanna á þessu sviði. Það er okkar von að átakið veki áhuga landsmanna á uppruna örnefna og jafnvel löngun fólks á að ferðast um landið og kynna sér nýja og áhugaverða áfangastaði á landinu.
MS mun áfram leggja sitt af mörkum til að örva umræðu um íslenskt mál og efla þekkingu sem fyrr t.d. með því að birta fræðsluefni í auglýsingum, á mjólkurfernum og á heimasíðu MS. Önnur verkefni eru málræktarauglýsingar í tengslum við dag íslenskrar tungu og aðra hátíðadaga.
Unnið í samstarfi við Árnastofnun
Smelltu hér til að halda áfram á síðunni.